miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Fyrstu kaflarnir

Það er margt sem kemur upp í hugann við lestur bókarinnar Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness. Hugurinn fær oft lausan tauminn og gegn mínum vilja fær margt annað en bókin athygli mína. Hugmyndirnar sem eru tengdar bókinni eru þó margar hverjar hreint út sagt kjánalegar (eða kannski finnst mér þær bara kjánalegar vegna þess að allar mínar hugmyndir um það sem gæti verið ,,milli línanna" hafa verið skotnar niður af mínum fyrirverandi íslenskukennurum.) En flest allar eiga þessar hugmyndir þó sameiginlegt að tengjast Bjarti, aðalpersónunni.

Fyrst vil ég þó byrja á að tala um draugasöguna í byrjun bókarinnnar, hún er rosaleg! Munkur sem skipti yfir í vonda liðið og gerði Ísland að fórnarlambi hallæris og allskyns leiðinda. Kona, Gunnvör, sem gerir samning við munkinn og fer að éta mann og annan. Og allt gerist þetta á staðnum þar sem Bjartur kemur síðan að og ætlar að búa.

Bjartur er, að mínu mati, mjög sérstakur karl. Hann hugsar betur um húsdýrin en eiginkonu sína, en eins og kemur fram í brúðkaupi Bjarts hugsa aðrir menn í sveitinni um lítið annað en búskap, þannig er sá hugsunarháttur kannski bara í takt við tíðarandann. Bjartur á líka standa fyrir hinn dæmigerða Íslending og endurspeglar svolítið þjóðarandann. Þrátt fyrir það er Bjartur mjög ýkt dæmi um hinn týpíska bónda á þessum tíma og eru sumar gjörðir hans í besta falli skrýtnar.

Bjartur sýnir strax í byrjun að hann er þrjóskur og vill fá sýnu fram en ég vona að þrjóska hans bitni ekki á Rósu, sem virðist vera ansi meinlaus og væn.