sunnudagur, 3. nóvember 2013

Vísaðu mér veginn

Ég ligg hreyfingarlaus í malbikinu og hugsa. Það er í raun ekkert annað sem ég get gert. Gott er í veðri, heiðskýr himinn, lognið svo svakalegt að fuglarnir fljúga ekki einu sinni. Þetta er eins og góður laugardagsmorgunn, þar sem engin ástæða er til þess að fara á fætur. Þess vegna kýs ég að liggja hér um stund.

Skyndilega heyri ég létt fótatak. Jesús Kristur stendur mér við hlið.

"Sælir," segi ég. "Má bjóða þér sæti?"
Kristur brosir að mér og tyllir sér. Ég reyni að hagræða mér aðeins svo ég sjái hann betur, en það er svo erfitt að ég hætti við. Ég næ þó að snúa höfðinu að honum, og brosi.
"Gullfallegur dagur í dag," segir Kristur. "Er það kannski þér að þakka?" segi ég glettinn. "Tjaah, ég veit nú ekki með það…" segir hann og roðnar.

Það kemur smá vandræðaleg þögn, Spurning brennur mér á vörum. Smeykur, en samt ákveðinn spyr ég hinn krossfesta.

"Er ég að spyrja rangan mann ef ég spyr þig hver tilgangur lífsins sé?"
"Þú spyrð réttan mann, en rangrar spurningar." segir K.

Ég hinkra aðeins og leita að réttu orðunum.

"Af hverju er ég hér?"
Kristur dregur andann djúpt.

"Tilgangur minn á þessari jörðu, samkvæmt almenningsáliti, var það að ég átti að vísa fólki veginn."
"Og…er það ekki svo?"
"Smá mistúlkun. Ég átti bara að bera boðskap."
"Nei nú lýguru."
"Ég á ekki að vísa fólki veginn. Sá máttur liggur hjá fólkinu. Fólkið á að vísa veginn, Sinn veg, þinn veg, alla vegi."

Þetta voru heldur djúpar pælingar hjá hinum smurða, og gaf ég mér smá stund til að túlka þau.

"Ok…og…hvað gerði ég þá rangt? Af hverju er ég hér?"
"Þú vísaðir ekki veginn."
"Andskotinn…hvað get ég gert til að laga þetta?"
"Þetta geturu ekki lagað bróðir, og það veistu vel."

Ég finn núna hversu vonlaus málstaður minn er gegn hinum upprisna.

"Er eitthvað sem ég get gert?"
Kristur stendur rólega upp og dustar rykið af kuflinum. Hann klappar mér á öxlina.
"Þú getur bara reynt betur í næsta lífi."
Hann lítur brosandi í kringum sig og skýlir augum sínum frá sólinni. Hann blikkar mig og hverfur á braut. Í fjarska heyrist sírenuvæl.

Á Miklubrautinni eru 2 bílar klesstir saman. Þar loga engin ljós.


Og líka ljóðið sem ég gerði:

Veggir, blár stóll.
Kalt loft frá viftunni í loftinu.
Borð, blýantur.

Hver dagur er eins og
súrt epli sem gefur ekkert eftir.

En að lokum kemur tertan
sem lengi beið eftir þér
og hrífur þig með sér
inn í dúnmjúk ský æðruleysis.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli