sunnudagur, 29. september 2013

Jújú, við sömdum annað lag

http://www.youtube.com/watch?v=GS4tJdc566s

Orð: Brynhildur Ásgeirsdóttir, Arnór Steinn Ívarsson, Jón Pálsson.

Tónar: Brynhildur Ásgeirsdóttir, Jón Pálsson.

Gaul sem hljómar furðu vel: Brynhildur Ásgeirsdóttir, Arnór Grjót.

Gaur sem spilar svo fast á gítarinn að ég skil ekki hvernig hann er ennþá í heilu lagi: Jón Pálsson.

Ég var svolítið leiður fyrir hönd Gvendar og okkur langaði að semja um hann. Hann átti betra skilið auminginn.
Já, annað semi-rólegt reiðilag, þú verður bara að sætta þig við það!

Ég vona að þú skemmtir þér vel!

Ástir

Ég var búinn að taka eftir því að það var lítið um ástir í Sjálfstæðu fólki en einmitt þegar ég kvartaði yfir ástarskorti í bókinni kemur hin yndisfríða mær úr Útirauðsmýri og heillar hann Gvend okkar alveg uppúr skónum. Þau eiga yndislegar stundir saman og ég hélt að loksins væri HKL búinn að snúa þessu ástarleysi við. En Adam var ekki lengi í Paradís, þessi drós er fyrr hafði kysst Gvend þóttist nú ekki þekkja hann. Hann var víst ekki nógu góður fyrir hana, hann hefði átt að fara til Amríku og vera þar, þá væri hann nógu góður fyrir hana.

Enn og aftur vil ég segja að ég er engu nærri því að botna í kvennmönnum, þrátt fyrir endurteknar tilraunir og margprófuð vísindi.

Þessi stelpa var greinilega að leita að einhverju ,,one-night stand“ eins og þeir segja hinumegin við Atlantshafið. En hann Guðmundur var á öðru máli og kastaði öllu á glæ fyrir ástina, hann vildi meira. Það er hinsvegar eitthvað sem ég skil fullkomlega. Það að hún hafi þverneitað tilveru hans gerði mig mjög reiðan (vonlausi rómantíkusinn í mér öskraði af gremju) og að Guðmundur hafi fórnað öllu fyrir hana en sitji nú eftir með Bjart í staðinn fyrir að vera í hinni frjálsu Amríku lét mig finna til með honum aumingja Gvendi, sem á svo mikið betra skilið.
Ég bað um þetta og Halldór svaraði svo sannarlega kallinu; en svo braut hann mig niður.

Vissulega eru margar gerðir af ástum í bókinni: Bjartur elskar kindur, mæðginaást Nonna og mömmu hans, einhver skrýtin spenna milli Bjarts og Ástu Sóllilju, en ekkert sem var neitt rómantískt og krassandi. Ég vonaði samt að þetta myndi enda vel fyrir okkar mann, en jæja svona er lífið.

sunnudagur, 22. september 2013

Raunir Rósu

http://www.youtube.com/watch?v=67bdGFkEtgo

Lag og texti: Brynhildur Ásgeirsdóttir og Jón Pálsson
Söngur: Brynhildur Ásgeirsdóttir
Gítarglamur: Jón Pálsson

Við ákváðum að láta Rósu tala í þessu lagi. Hún var með mjög mikla bælda gremju og hún fékk smá útrás í þessu lagi.
Textinn er í description-inu.

Góða skemmtun!

Ég að tala um eitthvað sem ég skil ekki

Þessa vikuna datt mér ekkert skemmtilegt í hug til að tala um hér, ég biðst innilegrar afsökunar á því. Aðal orsök þess er hins vegar að ég eyddi heilum degi í að semja lag fyrir þig, með henni Brynhildi.

En hér læt ég einhverja auma færslu flakka:

Ásta Sóllilja, aumingja stelpan, sem er svo forvitin um það sem er að gerast en fær enga fræðslu. Ég er nú enginn sérfræðingur um þessi málefni en það gefur augaleið að hún veit ekkert hvað er að gerast í hennar líkama, hennar hugsunarhætti, hennar sál. 

Bjartur var ekki mikið fyrir að upplýsa hana, neitar að sýna henni neitt um samskipti kynjanna og hún er bara ein í miðju svartholsins sem er að vera stelpa á þessum tíma lífsins. Enginn björgunarhringur, engin von.

Nei, djók.

Samt í alvörunni, hún virðist vera ekkert alltof ánægð með hvernig hún lítur út. Eins og þegar hún er í kaupstaðnum, þá virðast stelpurnar vera eins og prinsessur úr ævintýrum hún lítur á sjálfa sig sem einhvern illa gerðan hlut úr sveitinni. 

Ég veit heldur ekki hvað er í gangi þegar kennarinn kemur inn í þetta mál. Hann kemur inn í líf barnanna og kennir þeim margt en í lokin á 52. kafla "... seildist hann til lampans, slökti ljósið og tók Ástu Sóllilju." Eins og ekkert væri eðlilegra. Ég veit ekki hvert Laxness er að fara með þetta, á þetta að hafa einhverja æðri merkingu? Ég er svo lélegur í að taka eftir svoleiðís hlutum. En ef maðurinn meinar ekkert með þessu finnst mér fulllangt gengið að hafa kynferðislega misnotkunn gegn barni í sögunni. Ásta náttúrulega er miður sín og heitir því að þetta muni ekki gerast aftur og enginn fái að vita af þessu.

Síðan kemur parturinn sem ég á erfitt með að skilja: hún bara skiptir um skoðun og bara segir honum að hann megi gera þetta aftur og að hann hafi ekki gert neitt rangt! Ég skil ekki kvenmenn...

sunnudagur, 15. september 2013

ARRGG! ICH BIN WÜTEND!

Tilfinningar: Eitthvað sem nútímasamfélag hefur búið til? Eitthvað sem innst inn í sálu okkar dvelur, eða hvað? Er það hreinlega ekki bara hugarfóstur hins rómantíska skálds? Hvað veit ég?
Tilfinningar: Eitthvað sem ég skil ekki. Hvernig getur maður fundið til ef það sem ræður því hvað maður finnur er ekki maður sjálfur. Hvað ef tilfinningar eru bara eitthvað sem aðrir láta þig finna og þú getur ekkert gert í?
Hví byrja ég þetta blogg á því að tala um tilfinningar, jú, ég hef ekkert annað til að tala um!

Þolinmæði mín gagnvart þessari bók er þvímiður að niðurlútum komin. Allir aðrir virðast skilja betur og taka eftir smáatriðum betur en ég og ég er bara kominn með nóg. Mig langar að tala um stærðfræði! Ég veit að það er geðveikt nördalegt en í guðanna bænum hvað ég er kominn með nóg af lestri! Þar sem ég veit að þú varst á málabraut, Dagur, þá efast ég um að þú sért stærðfræðiáhugamaður og ég verð bara að halda mínum stærðfræðiskoðunum útaf fyrir mig...

Ég veit að ég hef nóg að tala um en orðin eiga erfitt með að skila sér niður á blað...
Önnur ástæða þess að ég byrjaði að ég byrjaði á því að tala um tilfinningar er að bókmenntir eiga að vekja tilfinningar hjá fólki. Ekki það að engar tilfinningar hafa vaknað við lestur bókarinnar bara það að ég er bara tregari til þess. Fyrir mér er þetta bara námsefni, eitthvað sem ég þarf að læra og ég öfunda þig fyrir að geta elskað bók jafnmikið og þú elskar Sjálfstætt fólk. Það skín í gegn þegar þú ert að kenna og það sést að þig langar að við elskum bókina líka.

Þetta hefur verið svona í gegnum mína skólagönu, hatað að lesa, elskað að reikna. Álit mitt á lestri hefur þó batnað og ég skal reyna að klára þessa bók með krafti.

Stórviðburðir

Athugið: Í þessari færslu verður oft talað um ,,Atvikið“. Um talað atvik má finna á blaðsíðu 233. Takk fyrir athylgina og góða skemmtun!

Ákveðin spenna hefur verið ríkjandi á milli Bjarts og Ástu Sóllilju, aðallega vegna þess að hún horfir á hann sem einhverskonar ofurmenni. Í mínum augum sýnir Ásta Sóllilja einkenni Ödipusarduldar (kannski öfgafullt dæmi en sýndu biðlund).
Þegar ég las Atvikið í fyrsta skipti fannst mér vera allt of mikil kynferðisleg spenna í gangi, Ásta snýr sér að honum og horfir á uppeldisfaðir sinn sem hann sé svo stór og sterkur (greinlega laðast hún að honum). Svo hreyfir Bjartur sig og kemur við líf hennar. Ásta Sóllilja er náttúrulega bara lítið stelpa sem er að kynnast sínum líkama og vissi líklegast ekki að hún gæti fundið svona til á þessum stað. Ásta er hins vegar ekkert að ýta hendinni hans Bjarts í burtu, heldur grípur í hann full losta og ,,...einmitt á þessu augnabliki, þegar hún var búin að gleyma öllu nema honum, þá – hratt hann henni frá sér og steig frammúr rúminu.“ (bls. 234) Persónulega finnst mér þetta vera svolítið erótískt og lostafullt hjá henni Ástu, en mér fannst augljóst og ekkert vafamál að Bjartur var sofandi allan tímann og vaknaði við það að Ásta grípur svona í hann. Þess vegna fannst mér svo gaman í réttarhöldunum um daginn, mér finnst gaman að rökræða (kannski voru rökin okkar um daginn kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir en þetta var engu að síður gaman að selja skoðanir sínar á þennan hátt).

Hellingur sem ég get talað um meira en ég á eitthvað rosalega erfitt með að tjá mig en meira um að á eftir.

sunnudagur, 8. september 2013

Nýtt upphaf+ljóð

Hér verða kaflaskil í bókinni. Ég veit ekki hvað mér finnst um það, ég vissi alla vega að þetta Rósa og Bjartur dæmi var ekki að fara að virka í 400 blaðsíður í viðbót. Mér finnst bara gott að fá smá ferskleika í bókina sem ég trúi að Ásta Sóllilja eigi eftir að koma með.
Það koma líka hellingur af nýjum krökkum inn í söguna sem ég á enn eftir að kynnast betur, en þetta er allt gott og blessað hjá honum Halldóri. Ég ætla að láta ljóðið flakka, ekki vera of grimmur í dómi þínum, við erum ekki nema aumir framhaldsskólanemar.

Sumarhús minn draumabær

Kofaskrifli´ í krummaskuði
kynt með anda fjandans.
Bóndabros í góðu stuði,
það er Bjartur, spegill landans

Hér á sauðkindin helgan sess
sérhverjum guði ofar.
Sálmum héðan veifað bless,
séraguðmundarkynið lofað.

Með rími reisti Bjartur hús,
ríðandi á rímnafáki.
Éttu þessa ljóðalús
ljóti Gunnvararhráki.

Húmir þar inni vansæl kona,
Bjartur segir: ,,Svona, svona!"
Hrjáir hana mjólk- og kjötþrár,
blessuð sé minning hennar Gullbrár.

Sumarhús hinn draumabær
sjálfstæðismanns að búa.
Venjulegan mann þangað enginn fær.
Ég er ekki einusinni að ljúga.





Hvíldu í friði, Rósa

Þegar Bjartur kemur heim úr förum sínum kemur hann að eiginkonu sinni látinni. Mér fannst viðbrögð hans Bjarts ekki vera mjög góð. Mér fannst það koma svolítið þannig út eins og hann væri ekkert að drífa sig að láta vita af andláti konu sinnar og fæðingu barns hennar. Heldur fer Bjartur á næsta bæ og byrjar á því að tala um það sem honum var kærast, sauðkindina. Bjartur viðurkennir þó að það sé ekki hans sterkasta hlið að tala um mannfólk og mér finnst það svolítið sína að þó svo að Bjartur sé þrjóskur er hann líka veðvitaður um eigin hæfileika og veikleika. Það kemur að mínu mati líka fram þegar kona frá Útirauðsmýri kemur að endurlífga barnið. Þar veit Bjartur lítið um það sem er í gangi og neyðist til að víkja með skottið milli lappanna, sjálfstæða manninum til mikillar gremju.


Það sem ég tók einna helst eftir í jarðarför Rósu var hversu vel Halldór lýsir sorg Þórðar. Persónlega var þessi sena mjög tilfinningarík og ég las nokkrar blaðsíður í þessum kafla tvisvar af því að þær voru svo flottar.

Þó að það sé fátt skondið við jarðarfarir fannst mér svolítið fyndið að það áhugaverðasta sem fólkið gat talað um, í bæði brúðkaupi og jarðarför Rósu, voru bandormar. Það var alla vega ekki miklum tíma eytt í að ræða ævi og störf hinnar látnu, sem er í raun og veru sorglegt því mér fannst að Rósa ætti betra skilið.

sunnudagur, 1. september 2013

Stiklað á stóru

Þó svo að mér langi til að skrifa meira þá gat ég því miður ekki skrifað meira í þessari viku sökum tímaskorts, en ég reyni eins og ég get að draga fram aðalatriðin í pælingum mínum í þessari færslu.

Bjartur kemur fram við Rósu eins og dýr, sér bara um það sem hún þarf til að lifa af, gefur henni að borða og veitir henni húsaskjól. Rósa er smám saman að fölna (fær enga ástúð, er vannærð, þunglynd) en Bjartur skilur ekkert í því hvers vegna svo sé, hann er ekki að reyna að vera vondur. Tilfinningalega hlið Rósu er gjörsamlega hundsuð og beðnum hennar um félagsskap er vísað á bug, þó svo að Bjartur heldur að hann sé rosalega klár þegar hann skilur hana eina eftir með kind. Þegar öllu er á botninn hvolft, Rósu líður illa.

Bjartur sýnir enn og aftur að hann er sá þrjóskasti í bransanum. Hann heyir stríð gegn náttúruöflum og öðru sem hann getur á engan hátt stjórnað. Það er líka svolítið fyndið að hann hneykslist á þróskunni í Rósu og segir að kvenkindin sé þrjóskari en sauðkindin þegar hann er líklegast sá þrjóskasti í héraðinu og þó svo að önnur héruð væri tekin með. Það sést líka vel hvað sumar ákvarðanir hans eru misgáfaðar þegar hann reynir að veiða hreindýrstarf upp á sitt eindæmi, það er kannski ekki eitthvað sem maður er að vinda sér út í þegar það er fárviðri og langt á næsta bæ. En hvað er stórt spendýr með horn fyrir Bjarti þegar karlmennskan og sjálfstæðið er í húfi?

Það verður gaman að sjá hvert samband Bjarts og Rósu þróast og hvert söguþráðurinn tekur okkur í næstu köflum.